Viðskiptaskilmálar Bako Verslunartækni, kt. 520690-1589 (hér eftir BVT)

Greiðsluskilmálar:

Gjalddagi reiknings er útgáfudagur. Viðskiptamenn eru beðnir um að greiða reikninga í samræmi við tilgreinda skilmála. Hæstu lögleyfðu dráttarvextir reiknast frá gjalddaga, séu reikningar ógreiddir á eindaga. BVT áskilur sér rétt til að fella niður reikningsafslátt, dragist greiðsla umfram tilskilinn greiðslufrest. Þegar samið hefur verið um að vara skuli afhent í áföngum og greiðsla hefur ekki borist vegna fyrri afhendinga stöðvast frekari afhendingar af hálfu seljanda þar til trygging fyrir greiðslu hefur verið innt af hendi. Sama gildir ef samið hefur verið um innborganir vegna vörukaupa og kaupandi stendur ekki við samkomulag þar að lútandi. Seljandi tekur ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem kaupandi kann að verða fyrir vegna tafa á afhendingu sbr. ofangreint.

Söluveð:

BVT heldur söluveði, samkvæmt III. kafla, undirkafla G, laga nr. 75/1997 um samningsveð, í seldri vöru eins og hún er skilgreind í reikningi þar til kaupverð vörunnar samkvæmt sölureikningi hefur verið að fullu greitt. 

Sendingar:

Vara er ætíð send á ábyrgð og kostnað kaupanda. Sé pöntuð vara ekki sótt – áskilur BVT sér rétt til að senda vöruna til kaupanda á hans kostnað. 

Tafir á afhendingu:

BVT ber ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem verða kann vegna seinkunar á afhendingu eða rangrar afhendingar og/eða ef vara kemur gölluð frá erlendum birgjum. BVT ber ennfremur ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem má rekja til aðstæðna (force majeure) sem seljandi getur ekki ráðið við þ.á.m. verkföll, verkbönn, eldsvoða, stríðsástand, skipsskaða eða aðrar sambærilegar aðstæður.

Vöruskil:

BVT tekur ekki við vöru sem kaupandi vill skila nema um lagervöru sé að ræða og að skilin fari fram innan 15 daga frá afhendingu vörunnar. Ekki er um endurgreiðslu að ræða í slíkum tilvikum heldur fær kaupandi inneignarnótu fyrir andvirði vörunnar. Skilyrði fyrir því að BVT taki á móti vörunni er að hún sé í sama ásigkomulagi og við afhendingu. Kvartanir um galla á vöru skulu berast seljanda sem fyrst, helst skriflega og innan 8 daga frá afhendingu. Ef ástæður þess að vöru er skilað verða ekki raktar til mistaka seljanda og/eða galla á vörunni áskilur fyrirtækið sér rétt til að draga allan kostnað sem af þessu hlýst frá inneign kaupanda.

Ábyrgð:

Gildistími ábyrgðar er 1 ár frá dagsetningu reiknings. Komi í ljós framleiðslu- og/eða efnisgalli á ábyrgðartímabilinu takmarkast ábyrgð BVT við kostnað við varahluti og viðgerð á hinni gölluðu vöru. Kaupandi skal kosta og sjá um að koma tæki á verkstæði seljanda til viðgerðar nema um sé að ræða stærri tæki sem erfitt er að flytja. BVT ber aldrei ábyrgð á afleiddu tjóni vegna galla eða bilunar á seldri vöru. Bótafjárhæð takmarkast ætíð við söluverð viðkomandi vöru án vsk. Ef seld eru notuð tæki fylgir þeim ekki ábyrgð nema um slíkt sé sérstaklega samið skriflega. BVT undanþiggur sig að öðru leyti ábyrgð á seldum vörum að því marki sem lög heimila. Að öðru leyti gildir ábyrgð í samræmi við lög um neytendakaup (lög nr.48/2003).

Brottfall ábyrgðar:

BVT ber enga ábyrgð á óbeinu tjóni sem kann að hljótast af notkun á vörunni. Eigi bilun, skemmdir eða eftir atvikum eyðilegging á vöru rætur að rekja til rangrar og/eða slæmrar meðferðar kaupanda (eða aðila sem hann ber ábyrgð á) ber kaupandi ábyrgð á greiðslu viðgerðarkostnaðar. Ábyrgð fellur niður ef verksmiðju- eða raðnúmer hefur verið fjarlægt af tækinu. Ábyrgðin fellur úr gildi ef ekki hefur verið farið að fyrirmælum framleiðandans varðandi öryggismál, uppsetningu og stýrt viðhald samanber leiðbeiningar í handbók. Ábyrgð gildir ekki vegna tæringar á búnaði, eðlilegs slits eða slæmrar umgengni kaupanda.

Skaðsemisábyrgð:

Verði ágreiningur um það hvort varan hafi valdið tjóni fer um ábyrgð BVT eftir lögum nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Seljandi undanþiggur sig ábyrgð af slíku tjóni að því marki sem þau lög heimila.

Ábyrgðarskírteini:

Sölureikningur gildir sem ábyrgðarskírteini enda komu raðnúmer búnaðar þar fram.

Neytendakaup:

Sé um að ræða neytendakaup í skilningi laga nr. 48/2003 ganga ákvæði þeirra laga framar viðskiptaskilmálum þessum ef þau stangast á.

Öll verð og upplýsingar á heimasíðu eru birt með fyrirvara um prentvillur og áskilur BVT sér allan rétt til verðbreytinga án fyrirvara.